Áliðnaður á Íslandi

Í hnotskurn.

 • Hefja uppbyggingu á áveri við Bakka við Húsavík tafarlaust.
 • 800 þúsund tonn framleidd á ári eða 2% af heimsframleiðslu.
 • Árleg framlag til vergrar landsframleiðslu er 6-6,8%.
 • 5000 þúsund manns starfa við áliðnað á Íslandi.
 • Ál er 40% vöruútflutnings.
 • Tengd starfsemi skilar 50 milljörðum í þjóðarbúið.
 • Verðmætaaukning frá upphafi við álframleiðslu.
 • Ál er kjörið til endurvinnslu.
 • Pólitískt andrúmsloft á Íslandi gagnvart áliðnaði er fjandsamlegt.
 • Önnur lönd bjóða nú hagstæðara verð á raforku en við gerum.
 • Grænland á sjónarsviðið sem valkostur fyrir álfyrirtækin.

 

Greinargerð.

Í skýrslu Landsvirkjunnar frá 2011 segir: ,,Kjarni málsins er sá að þegar söluaðili raforkunnar er opinber aðili sem greiðir arð til ríkisins en kaupandi er erlent stórfyrirtæki sem flytur allan hagnað úr landi ræðst þjóðhagslegur ábati vegna raforkuframleiðslu fyrst og fremst af því raforkuverði sem þessir aðilar semja um á milli sín. En þeir þættir sem mest ber á í umræðunni um stóriðjuna hérlendis, s.s. sköpun starfa, skipta mun minna máli." Heimild: Landsvirkjun.

Álframleiðsla hófst á Íslandi árið 1969 í álveri Ísal (Alcan/Rio Tinto Zink) í Straumsvík. Framan af voru framleidd um 33 þúsund tonn, en frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar hefur vöxturinn verið hraður og er framleiðsla Alcan til dæmis komin í 190 þúsund tonn. Síðan 1995 hefur álframleiðsla á Íslandi nær áttfaldast. Nú eru þrjú álver á landinu, en auk Alcan, starfa hér Norðurál, álver Century Aluminium, sem hóf starfsemi á Grundartanga 1997, og álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði sem hóf starfsemi 2007. Samanlögð framleiðsla þeirra er rúm 800 þúsund  tonn á ári sem jafngildir um 2% af heimsframleiðslunni og nemur um 40% af vöruútflutningi Íslendinga. Árlegt framlag álfyrirtækjanna þriggja til vergrar landsframleiðslu er um það bil 85 til 96 milljarðar króna eða 6-6,8%. Hátt í 5000 manns vinna við áliðnað á Íslandi og  tengdum greinum, en nær allt álið er flutt út til frekari vinnslu. Ef síðustu þrjú ár eru skoðuð er álið að jafnaði um 40% vöruútflutnings og 25% heildarútflutnings Íslendinga og óbeint framlag iðnaðarins, þ.e. virðisauki sem myndast í tengdri starfsemi, á bilinu 40-51 milljarður króna. Heimild: Hagfræðistofnun Háslóla Íslands.

Verðmætaaukning frá upphafi og endurvinnsla. Ál er vafalítið með verðmætustu efnum sem hægt er að endurvinna með góðu móti. Í Bandaríkjunum einum eru framleiddir um 100 milljarðar af gosdósum á hverju ári. Rúmlega 2/3 hlutar af þessum dósum skila sér til endurvinnslu. Það sama á við um 85-90 prósent af álinu sem notað er við framleiðslu bíla. Allir hagnast á notkun áls. Þeim mun meira sem notað er af áli í bíla, þeim mun léttari eru þeir, eyða minna bensíni og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þegar ál er endurunnið þarf til þess 95 prósent minni orku heldur en við frumvinnslu efnisins. Að auki dregur það úr þörfinni á losun fráfallsefna í jarðveg. 

Allt hefst á leðju. Leðjan sem um ræðir er í raun málmgrýti sem nefnist báxíð. Ef þú sæir bílhlass með um 4 tonn af báxíði og einhver myndi spyrja: "Hvað getur þú gert við þetta?" eru allar líkur á að þú myndir svara: "Ekki mikið. Kannski ég geti notað þetta sem jarðlag í innkeyrsluna mína." 

Hvítt púður, hvítur málmur. Úr helmingnum af þessu bílhlassi, 2 tonnum, væri hægt að vinna súrál sem er púðurkennd hvít oxíð áls. Það er þó ekki auðvelt. Tæknin er vægast sagt flókin og tækjabúnaðurinn mikill. Þetta er ferli sem Alcoa hefur náð miklum framförum í. Úr 2 tonnum af súráli getur Alcoa brætt 1 tonn af áli. Það var þessi kunnátta sem kom Alcoa af stað árið 1888. 

Kraftaverk í hverju tonni. Eitt tonn af áli er nægjanlegt til þess að framleiða 60.000 Coca-Cola, Pepsi eða Egils Gull dósir. Það er einnig nægjanlegt til þess að framleiða burðargrindur á sjö bílum og myndi nægja í 40.000 minnisdiska í tölvur sem er nægjanlegt til að vista allar þær bækur sem nokkurn tíma hafa verið gefnar út. Allt þetta úr einu bílhlassi af leðju. Það er göldrum líkast og við erum sannanlega stolt af því að hafa hjá okkur fólk sem getur framkallað þessa galdra. 

Skref fyrir skref. Að sjálfsögðu framleiðir Alcoa ekki einungis ál. Meira en 3 milljarðar dollara af veltu okkar á ári koma frá vörum sem ekki eru unnar úr áli. Okkur langar að kynna fyrir þér hvernig álið sem við framleiðum breytist úr því að vera nánast verðlaus mold yfir í að verða háþróuð vara sem hefur gríðarlegt notagildi fyrir okkur öll. 

Námugröftur. Báxíð er málmgrýti sem er ríkt af áloxíðum og hefur tekið milljónir ára að myndast. Báxíð var fyrst grafið upp með skipulögðum hætti í Frakklandi, en finnst nú á fjölda staða um allan heim. Í dag er mest um námugröft á báxíði í Karíbahafinu, Ástralíu og Afríku. 

Hreinsun. Til þess að breyta báxíði í súrál þurfum við að mala það niður í bland við kalk og vítissóda. Þeirri blöndu er síðan dælt inn í ofna sem eru undir miklum þrýstingi og hún hituð. Áloxíðin, sem við erum að reyna að ná úr þessari blöndu, eru leyst upp úr vítissódanum og falla svo úr blöndunni. Þá eru áloxíðin hreinsuð og hituð til þess að ná úr þeim vatninu. Það sem eftir stendur er hvítt, púðurkennt efni sem við köllum súrál eða áloxíð (AI203). 

Bræðslan. Súrál verður að áli við rafgreiningarferli sem nefnist álbræðsla í daglegu tali. Við leysum upp súrálið með flúoríðum í stórum kerum. Þegar sterkum rafstraumi er hleypt á kerin skilur álið sig frá súrálinu og því er hleypt úr kerinu.

Framleiðslan. Álinu er veitt úr kerinu í sérstaka ofna svo hægt sé að blanda því nákvæmlega við aðra málma. Málmurinn er hreinsaður í ferli sem nefnist mýking og síðan hellt í mót eða steyptur beint í málmstangir. Frekari framleiðsla á málminum á sér gjarnan stað og endar álið þá í einni af fjölmörgum vörum sem Alcoa eða viðskiptavinir fyrirtækisins þarfnast - allt frá því að vera gosdós í ísskápnum þínum í að vera þota sem flytur þig milli heimsálfa. Heimild: Alcoa.com

Hér á eftir fer greinarflokkur um áliðnað á Íslandi eftir Styrmi Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins. Fékk flokkurinn góðfúslegt leyfi hjá Styrmi að birta greinarflokkinn. Þetta eru 4 greinar sem birtust á Evrópuvaktin.is haustið 2011. Ál er einn umhverfisvænasti málmurinn því hann léttir allar framleiðsluvörur sem hann er notaður í t.d. bíla, flugvélar ofl. með meðfylgjandi orkusparnaði. Ál er endurvinslumálmur númer eitt í heiminum í dag. Framleiðsla í meðalstærð álevers á Íslandi minnkar mengun sem samsvarar útblæstri úr 600,000 bifreiðum á ári. Því hér er notuð vatnsorka en ekki gas eða kol til orkuframleiðslu. Hægri grænir, flokkur fólksins hugsar hnattrænt þegar kemur að lausn á vandamálum vegna hlýnun jarðar og stanslausum útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

 

Grein 1:

Áliðnaður á Íslandi og aðildarumsókn að ESB

Höfundur: Styrmir Gunnarsson, 25. október 2011

Áliðnaðurinn á Íslandi á rætur að rekja til samninga, sem gerðir voru við Svissneska álfélagið (Alusuisse) á fyrstu árum Viðreisnarstjórnarinnar, sem var við völd á árunum 1959 til 1971. Þá lýstu forráðamenn Alusuisse áhuga á að byggja álver á Íslandi. Landsvirkjun var stofnuð til þess að tryggja orkuöflun til starfseminnar og var dr. Jóhannes Nordal, sem þá var seðlabankastjóri, kjörinn formaður stjórnar hennar. Harðar pólitískar deilur urðu um byggingu Búrfellsvirkjunar á Alþingi og um samningana við Svissneska álfélagið. Á Alþingi hvíldu þær mikið á Jóhanni Hafstein, sem þá var iðnaðarráðherra af hálfu Sjálfstæðisflokksins en jafnframt átti Eyjólfur Konráð Jónsson, sem þá var ritstjóri Morgunblaðsins mikinn þátt í að halda uppi sókn og vörn fyrir byggingu álversins í Straumsvík og Búrfellsvirkjunar. Þeir Jóhannes Nordal beittu óspart fyrir sig hugsjónum og hugmyndum Einars Benediktssonar, skálds, sem snemma á 20. öldinni hafði séð fyrir sér stórvirkjanir í íslenzkum fallvötnum.

Samningarnir við Svissneska álfélagið voru undirritaðir 1966 og álverið í Straumsvík tók til starfa árið 1970. Framleiðslugeta þess var í upphafi 33 þúsund tonn. Hún jókst svo upp í 100 þúsund tonn 1980 en síðan liðu 15 ár þangað til ráðizt var í frekari stækkun. Árið 1995 var hafizt handa um hana og 1997 var framleiðslan komin upp í 162 þúsund tonn. Hún var síðan aukin með ýmsum tæknilegum aðgerðum þannig að hún er nú um 190 þúsund tonn. Kanadíska álfyrirtækið Alcan keypti Alusuisse og varð þar með eigandi álversins í Straumsvík. Alcan sameinaðist síðar Rio Tinto, sem nú er eigandi álversins. Fljótlega eftir að álverið í Straumsvík hóf starfsemi sína vaknaði áhugi hjá fylgjendum stóriðju á Íslandi að kanna möguleika á frekari uppbyggingu áliðnaðar í landinu. Á það reyndi þó ekki fyrr en ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar var mynduð 1974. Í ljós kom að það var hægara sagt en gert. Og ekki bætt úr skák, þegar Hjörleifur Guttormsson, iðnaðarráðherra í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens, sem sat 1980-1983, hafði upp ásakanir á hendur Svissneska álfélaginu um að það hagræddi bókhaldi sínu félaginu í hag.

Staðreynd er að það var fyrst á tíunda áratug aldarinnar eða um aldarfjórðungi eftir undirritun samninganna við Svissneska álfélagið, sem nýr aðili lýsti áhuga á byggingu álvers á Íslandi. Það var maður að nafni Kenneth Peterson, sem samdi um byggingu álversins á Grundartanga.Peterson kom Íslendingum á óvart með vinnubrögðum og starfsaðferðum. Hann kom ekki til Íslands í einkaþotum eins og álkóngar höfðu gert. Hann og hans menn dvöldu ekki á dýrum hótelum í Reykjavík heldur leigðu sér íbúð í Hlíðunum. Allar athafnir hans einkenndust af sparsemi og útsjónarsemi. En álverið á Grundartanga reis og tók til starfa á árinu 1998 með 60 þúsund tonna framleiðslugetu. Hún var aukin í 90 þúsund tonn árið 2001 og aftur í 220 þúsund tonn 2006 og í 260 þúsund tonn árið 2007. Á árinu 2009 var framleiðslugeta Norðuráls komin í 278 þúsund tonn.

Kenneth Peterson seldi álverið til fyrirtækis, sem heitir Century Aluminum en einn stærsti eigandi þess er fyrirtæki að nafni Glencore, sem er mjög öflugt fyrirtæki. Glencore á rætur að rekja til viðskiptaumsvifa Bandaríkjamanns að nafni Marc Rich, sem flúði undan skattayfirvöldum til Sviss og var sakaður um ólögleg viðskipti við Íran. Hann var síðar náðaður af Bill Clinton. Fyrirtæki Marc Rich kom við sögu í skreiðarviðskiptum Íslands og Nígeríu fyrir nokkrum áratugum. Framleiðslugeta Century Aluminum er um einn fjórði af framleiðslugetu Alcoa en Glencore, einn stærsti eigandi Century er hins vegar sjöfallt stærra fyrirtæki að veltu en Alcoa. Þriðja álverið var svo byggt á Reyðarfirði í tengslum við Kárahnjúkavirkjun. Það er stærsta álver, sem byggt hefur verið á Íslandi og framleiðslugeta þess um 350 þúsund tonn. Það er eitt stærsta álfyrirtæki í heimi, Alcoa, sem byggði Fjarðaál. Samtals nemur framleiðsla þessara þriggja álvera því rúmlega 800 þúsund tonnum. Til samanburðar má ætla að álframleiðsla Norðmanna nemi um 1200 þúsund tonnum. Á heimsvísu er framleiðsla á áli um 40 milljónir tonna.

Áliðnaðurinn á Íslandi stendur hins vegar frammi fyrir því, að hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu gæti leitt til þess að álverin hér yrðu að borga 4% toll af því súráli, sem þau flytja inn en er tollfrjálst hér nú. Slíkur súrálstollur er í gildi hjá Evrópusambandinu og á það raunar einnig við um rafskaut og unnar álvörur og íblöndunarefni í unnar álvörur en Alcoa framleiðir t.d. á Reyðarfirði verðmæta álvíra. Í næstu grein verður fjallað um stöðu áliðnaðarins á Íslandi í ljósi aðildarumsóknar Íslands að ESB. Heimild: Evrópuvaktin.is

 

Grein 2:

Áliðnaður og ESB II: Tollar á súrál og fleira mundu nema um 3 milljörðum króna

Höfundur: Styrmir Gunnarsson, 26. október 2011

Álið frá álverunum þremur á Íslandi er allt flutt með skipum til Evrópu og nemur verðmæti þess um 250 milljörðum á ári. Það er um 25% af útflutningi þjóðarinnar en 40% af vöruútflutningi. Álið er flutt til Rotterdam í Hollandi og telst því í skráningum allt fara til Evrópusambandsins og verulegur hluti þess reyndar seldur til ESB-ríkja en það er hins vegar ekki borgað í evrum heldur dollurum. Evran skiptir því ekki máli fyrir áliðnaðinn. Fyrir ál er borgað í dollurum og aðföng á borð við súrál og skaut eru borguð að mestu í dollurum. ESB-ríkin kaupa um fjóra og hálfa milljón tonna af áli á ári eða um 10% af heimsframleiðslu. Þar af kaupa þau um tvær milljónir tonna af okkur og Norðmönnum. Það eru enn starfrækt nokkur álver í Evrópu. Þau eru í Þýzkalandi, Frakklandi, á Spáni og Ítalíu, Svíþjóð og Slóvakíu en sum þeirra eru á síðasta snúningi. Búið er að loka einu þeirra og lokun annars er á næsta leiti. Stefna ESB-ríkjanna í orkumálum er að breytast, Þjóðverjar ætla að loka kjarnorkuverum. Pólitísk viðhorf innan Evrópusambandsins til stóriðju valda því, að ný fjárfesting á þessu sviði er ekki á dagskrá.

En jafnframt er hörð samkeppni á milli álveranna, sem selja ál inn á Evrópumarkaðinn. Það er samkeppni á milli álveranna, sem starfrækt eru hér og það er samkeppni úr öðrum áttum. Norsk Hydro selur inn á þennan markað. Það gerir hið risastóra rússneska álfyrirtæki, Rusal líka, svo og álver í Dubai og Mozambique. Norðurál hefur nokkra sérstöðu að því leyti, að það álver er fyrst og fremst framleiðslufyrirtæki. Norðurál vinnur úr hráefni, sem tveir aðilar leggja því til, Glencore og BHP Billiton, og afhendir þeim síðan ál, sem þau svo selja á eigin vegum. BHP Biliton er ástralskt fyrirtæki sem er eitt stærsta ef ekki stærsta námufyrirtæki í heimi og mjög umsvifamikið í álviðskiptum. Norðurál er því ekki sjálfstæður söluaðili. Gangi Ísland í Evrópusambandið kemur til allt að 4% tollur á súrál, 6% tollur á ál í föstu formi og 7 ½% á ál til íblöndunar. Miðað við núverandi innflutning mundi tollur á súrálsinnflutning nema um 2,5 milljörðum króna og á innflutning annarra hráefna um 300 milljónum króna. Hér er því um að ræða viðbótarkostnað, sem nemur tæpum þremur milljörðum króna.

Innan Evrópusambandsins er að finna súrálsnámur í tveimur ríkjum, á Spáni og á Írlandi. Enginn tollur er borgaður af því súráli. Þorri þess súráls, sem hér er unnið úr kemur frá Brasilíu, Ástralíu og Bandaríkjunum svo og frá eyjum á Karabíska hafinu. Innflutningur frá löndum innan ESB er hverfandi.Innan ESB er í gildi tollfrjáls kvóti á súráli frá tilteknum löndum, sem hafa verið í sérstökum tengslum við einhver aðildarríkin. Þar er um að ræða gamlar nýlendur. Þegar tekið hefur verið tillit til þess tollfrjálsa kvóta má gera ráð fyrir að tollur sé borgaður af um 85% af því súráli, sem flutt yrði til Íslands miðað við núverandi innflutningsmynztur. Það er ekki óhugsandi að álverin hér á Íslandi eigi mismunandi hagsmuna að gæta. Hugsanlegt er að sum þeirra fái súrál frá löndum, sem njóta tollfrelsis innan ESB en önnur ekki. Og þar sem samkeppni ríkir á þessum markaði í Evrópu getur það verið því álveri hér í hag, sem fær súrál frá gömlum nýlendum, Spáni eða Írlandi að önnur álver hér fái ekki tollfrjálsan aðgang fyrir þetta hráefni. Þrátt fyrir þetta er ólíklegt að brestur komi í samstöðu álveranna hér um að fá þessa tolla niðurfellda.

Í tölvupósti til Evrópuvaktarinnar hinn 21. september sl. segir Rannveig Rist, forstjóri álversins í Straumsvík: „Við leggjum höfuðáherzlu á að tollfrelsi fyrir súrál verði áfram tryggt og höfum af því verulega hagsmuni. Súrálið kaupum við í dag aðallega frá Brasilíu en þar til fyrir skömmu kom það einkum frá Bandaríkjunum og hér áður fyrr árum saman frá Ástralíu. Eitthvað frá Evrópu í gegnum tíðina (Írland) en ekkert í dag. Við vitum ekki til þess að álframleiðendur í löndum ESB fái undanþágur frá þessum tollum í dag. …Okkur sýnist að þetta atriði sé langstærsta hagsmunamál áliðnaðarins varðandi mögulega ESB aðild.“

 

Í svörum til Evrópuvaktarinnar um samningsmarkmið Íslands vegna áliðnaðarins segir Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og aðal samningamaður Íslands: „Engum þarf að dyljast mikilvægi áliðnaðarins á Íslandi og nægir þar að vísa til útflutningstekna. Mikilvægt er að rekstrarforsendur iðnaðarins haldist sem mest óbreyttar komi til aðildar Íslands að ESB. Nær allt ál, sem flutt er út frá Íslandi fer á Evrópumarkað og ekki yrði breyting á markaðsaðgangi þar eða í öðrum ríkjum kæmi til aðildar. Hins vegar þarf að skoða, hvort tollur á innfluttu hráefni til framleiðslunnar myndi hækka við aðild.“

Í samtali við Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra Samtaka áliðnaðarins á Íslandi kom fram, að um mikið hagsmunamál fyrir áliðnað hér á landi er að ræða. Svo hár tollur á súráli mundi grafa undan samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja, sem hér starfa. Þá sé ljóst, að tollar, sem mundu leggjast á ýmis önnur hráefni mundu vinna á móti þeirri þróun sem sé að verða til virðisauka í framleiðslu íslenzks áliðnaðar. Hins vegar eigi Íslendingar sterk rök í málinu, þegar til viðræðna um þetta efni kemur en mikilvægt sé að fylgja því fast eftir af hálfu samninganefndar Íslands.

Í ofangreindu svari sínu segir Stefán Haukur Jóhannesson til frekari skýringar:

„Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar segir um tollamál: „Þar sem ESB er í grunninn tollabandalag yrðu augljósustu áhrif ESB-aðildar á tollamál hér á landi þau að Ísland þyrfti að taka upp tollskrá ESB. Hún er eðlisólík þeirri tollskrá, sem Íslendingar búa nú við og því getur þetta atriði eitt og sér haft viðamiklar breytingar í för með sér á tollum í einstökum vöruflokkum. Við inngöngu í ESB mundu tollar milli Íslands og ESB falla niður en tollar á vörum frá þriðju ríkjum yrðu samkvæmt tollskrá ESB. Til framtíðar litið munar mestu um að tollar féllu niður af varningi frá ríkjum ESB, m.a. landbúnaðarafurðum. Hins vegar má búast við því að tollur mundi hækka á vörum, sem koma frá löndum utan ESB, t.d. Bandaríkjunum, sem gæti haft verðhækkun á þeim í för með sér.“

Eins og bent er á í álitinu er það einkum framkvæmd tollskrár ESB við innflutning frá þriðju ríkjum, sem gæti haft áhrif á tolla við innflutning hráefnis. Undanfarið hefur verið unnið að því að greina hagsmuni á þessu sviði í samráði við Samtök álframleiðenda og Samtök iðnaðarins, en sú greining verður grundvöllur samningsafstöðu Íslands. Í því sambandi er mikilvægt að greina tollskrá ESB og viðskiptasamninga þess og uppruna þess hráefnis, sem flutt er inn til Íslands. Innflutningur hráefnis og tollamál varða einkum framkvæmd tollabandalagsins, sem fellur undir 29. kafla samningaviðræðnanna og að eftir atvikum einnig 30. kafla um utanríkistengsl (þ.mþ.t. utanríkisviðskipti). Samningahópar um tollabandalagið og utanríkistengsl (þ.m.t. utanríkisviðskipti) móta tillögur um samningsafstöðu á viðkomandi sviðum en Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins eiga fulltrúa í samningahópunum. Þau drög verða síðan lögð fyrir samninganefnd Íslands, ráðherranefnd um Evrópumál, utanríkismálanefnd Alþingis og að lokum ríkisstjórn.

Efnislegar samningaviðræður eru ekki hafnar í umræddum samningsköflum. Rétt er þó að benda á að á rýnifundum með ESB um 29. kafla samningaviðræðnanna um tollabandalagið og um 30. kafla samningaviðræðnanna um utanríkistengsl var vakin athygli á mikilvægi þess að tryggja aðföng til álframleiðslu og að Ísland myndi fjalla nánar um málið í samningsafstöðu. Einnig má vísa til greinargerða samningahóps um tollamál og til samningahóps um utanríkisviðskipti- utanríkis og öryggismál, sem nálgast má á eftirfarandi slóðum:

Vegna 30. kafla um sameiginlegu viðskiptastefnuna:

http://www.utanrikisraduneyti.is/media/utanrikismal/II.-Kafli-30---CCP---svunta-og-greinargerd.pdf

Vegna 29. kafla-um tollabandalagið:

http://www.utanrikisraduneyti.is/media/fjarhagsmal/Grg.heild-29-tollur.pdf “

Í næstu grein verður fjallað um framtíð áliðnaðar á Íslandi og í fjórðu og síðustu grein um þau sjónarmið, sem hér hefur verið lýst af hálfu álframleiðenda og aðal samningamanns varðandi hagsmuni álveranna hér í ljósi aðildarumsóknar Íslands að ESB. Heimild: Evrópuvaktin.is

 

Grein 3:

Áliðnaður og ESB III: Álverin vilja öll auka umsvif sín, en....

Höfundur: Styrmir Gunnarsson, 27. október 2011

Álverin þrjú, sem hér eru starfrækt hafa öll lýst áhuga á að auka umsvif sín. Á árinu 2007 höfnuðu Hafnfirðingar í atkvæðagreiðslu á meðal íbúa verulegri stækkun álversins í Straumsvík. Um stöðuna nú segir Rannveig Rist, forstjóri Ísal, í tölvupósti til Evrópuvaktarinnar frá 21. september sl.: „Hér í Straumsvík er núna verið að vinna að stærsta fjárfestingarverkefni á Íslandi frá hruni, sem snýr að A) auknu rekstraröryggi með uppfærslu á spennum og öðrum rafbúnaði. B) 20% framleiðsluaukningu (úr 190þt í 230þt) með því að hækka straum í núverandi kerskálum, og C) breytingu á steypuskála, sem felur í sér að þar verða í stað barra framleiddir sk. boltar, sem eru sívalningar til þrýstimótunar og verðmætari vara en barrarnir. Allt þetta kostar tæpa 60 milljarða, sem samsvarar nokkurn veginn samanlögðum hagnaði Ísal sl. 10 ár og veitir í dag um 100 sérfræðingum á íslenskum verkfræðistofum vinnu og kallar samtals á ríflega 600 ársverk.“

Þær hugmyndir um stækkun álversins í Straumsvík, sem Hafnfirðingar höfnuðu 2007 snerust um að auka framleiðslugetu þess í 460 þúsund tonn. Um líkur á slíkri stækkun segir Rannveig Rist í fyrrnefndum tölvupósti: „Um mögulega framtíðarstækkun af þeirri stærðargráðu er erfitt að spá; það fer ekki sízt eftir því, hvort Hafnfirðingar vilja hana og hvort hægt er að semja um orku á ásættanlegu verði.“

Norðurál hefur haft áhuga á að byggja upp annað álver í Helguvík og framkvæmdir raunar hafnar við það. Þær hafa stöðvast að mestu vegna ágreinings um raforkukaup og raforkuverð frá Hitaveitu Suðurnesja, sem nú heitir HS Orka. Augljóst er að nýr eigandi HS Orku, Magma Energy, reynir að knýja fram hærra raforkuverð frá Norðuráli. Úrskurður gerðardóms um samninga aðila fellur á næstunni. En jafnframt fer ekki á milli mála eins og Agnes Bragadóttir hefur sýnt fram á í greinum í Morgunblaðinu með tilvísun í skjöl úr fjármálaráðuneyti, að stjórnvöld hafa lagt stein í götu Norðuráls á þeirri vegferð.

Alcoa hefur áhuga á að auka framleiðslugetu Fjarðaáls með fjárfestingu, sem mundi nema um 200 milljónum dollara eða um 25 milljörðum króna. Til þess þarf Fjarðaál að ná samningum um kaup á 40 MW af raforku til viðbótar frá Landsvirkjun. Samningaviðræður um þau orkukaup hafa nú staðið yfir um nokkurt skeið en óvíst er um niðurstöðu. Hins vegar mundi þessi fjárfesting Alcoa á Reyðarfirði þýða vinnu fyrir 200 manns í tvö ár og 40-50 manns til lengri tíma. Alcoa hefur haft áhuga á að byggja annað álver á Bakka við Húsavík og lagt töluverðan kostnað í athugun á því verkefni. Nú er orðið ljóst að af því verður ekki. Landsvirkjun hefur áhuga á að selja orku frá Þeistareykjum til annarra og hefur nefnt áhuga allmargra smærri fyrirtækja á orkukaupum á því svæði. Hins vegar herma heimildir að kínverskt fyrirtæki hafi áhuga á að byggja álver á Bakka og sé tilbúið til að greiða mun hærra raforkuverð en álverin á Íslandi hafa gert til þess. Þetta mál mun hins vegar vera á algeru frumstigi.

Það er vel hugsanlegt að uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi sé lokið og að hvorki verði af byggingu álvers í Helguvík eða á Bakka. Það er ekki aðeins ný verðstefna Landsvirkjunar, sem því veldur heldur aðrir möguleikar í öðrum löndum, sem valda því að Ísland telst varla samkeppnishæft lengur. Talsmenn áliðnaðarins telja að við séum að verðleggja okkur út af þessum mörkuðum. Í nýjum fjárfestingarverkefnum í áliðnaði utan Kína og Indlands sé meðalverð á raforku 20-25 dollarar en hér á Íslandi sé það komið í 25-30 dollara án flutningskostnaðar en hann er um 5-6 dollarar. Jafnframt sé ljóst að farið sé fram á umtalsverða hækkun frá því verði til nýrra verkefna. Á móti má hins vegar benda á að hér er til staðar blómlegur stuðningsiðnaður við álverin. Um 700-800 fyrirtæki veita þeim margvíslega þjónustu. Hér eru starfandi um 1500 ráðgjafaverkfræðingar. Um 200-300 af þeim eru í reglulegum verkefnum fyrir áliðnaðinn.

Kínverjar hafa aukið álframleiðslu sína verulega og þurfa ekki að kaupa ál frá öðrum. Í Qatar er verið að byggja álver, sem mun framleiða um eina milljón tonna af áli og fær orku frá gasi sem unnið er úr jörðu og er seld mjög ódýrt, jafnvel á helmingi lægra verði en hér. Búast má við frekari uppbyggingu í Miðausturlöndum. Í Kanada er rætt um frekari uppbyggingu á áliðnaði. Þar eiga álverin virkjanir og eru þá með 5-6 dollara málamyndaverð á megawatt. Að öðru leyti er raforkuverðið þar til stóriðju um 20-25 dollarar. Áliðnaðurinn í Kanada byggir á raforku frá vatnsaflsvirkjunum og Kanadamenn geta ekki nýtt sjálfir alla orkumöguleika sína.. Þá er ekki ólíklegt að álver verði byggð á Grænlandi á næstu áratugum í tengslum við nýja virkjunarmöguleika þar, sem eru að opnast vegna hlýnunar. Hugsanlegt er þó að Íslendingar muni njóta góðs af uppbyggingu á Grænlandi. Eitt þeirra fyrirtækja, sem skoða möguleika á byggingu álvers þar er Alcoa og vera má að álveri þar yrði stjórnað frá höfuðstöðvum Alcoa hér. Þá er ekki ólíklegt að sá stuðningsiðnaður, sem fyrr var nefndur og hefur þróazt upp í skjóli álveranna mundi fá verkefni við uppbyggingu áliðnaðar á Grænlandi, þó ekki væri nema vegna nálægðar landanna. Þar eru slík fyrirtæki tæpast til og svo fátt fólk, sem býr á Grænlandi að óhjákvæmilega verður að leita annað um margvíslega þjónustu. Ísland liggur vel við að veita slíka þjónustu.

Í fjórðu og síðustu grein um áliðnaðinn á Íslandi í ljósi aðildarumsóknar að ESB og birtist hér á Evrópuvaktinni á morgun, föstudag, verða ályktanir dregnar af þeim upplýsingum, sem hér hafa komið fram í þremur greinum. Heimild: Evrópuvaktin.is

 

Grein 4:

Áliðnaður og ESB IV: Verður álverum innan ESB mismunað?

Höfundur: Styrmir Gunnarsson, 28. október 2011

Það er auðvitað ljóst að áliðnaðurinn og hagsmunir hans ráða engum úrslitum um það, hvort Ísland gengur í Evrópusambandið eða ekki. Engu að síður er nauðsynlegt að við áttum okkur á þeim hagsmunum, sem þar er um að ræða og þá jafnframt hvernig um þá er fjallað. Hér er um að ræða fjárhæðir, sem nema tæpum þremur milljörðum króna á ári.

Í tölvupósti Rannveigar Rist, forstjóra Ísal í Straumsvík til Evrópuvaktarinnar hinn 21. september sl. segir m.a.: „Við vitum ekki til þess að álframleiðendur í löndum ESB fái undanþágur frá þessum tollum í dag.“ Í því ljósi er erfitt að sjá, hvernig samninganefnd Íslands getur tryggt álverum á Íslandi undanþágu frá súrálstollum, sem flestir aðrir verða að borga. Varla verður álverum innan ESB mismunað með þeim hætti – eða hvað? Í einkasamtölum hef ég heyrt þeirri skoðun fleygt að þetta verði ekki vandamál og jafnvel að Samtök álframleiðenda í Evrópu séu þeirrar skoðunar. Hvernig má það vera? Á hverju byggist slík bjartsýni? Eða á við um þetta eins og flest annað, sem varðar samningaviðræður Íslands við ESB að slegið sé úr og í?

Auðvitað er hugsanlegt að aðrir álframleiðendur í Evrópu hugsi sér að nota samningaviðræður Íslendinga til að tryggja sjálfum sér undanþágu frá þessum tollum. Það er eina skýringin á því að Samtök álvera í Evrópu hafi hugsanlega talið að þetta yrði ekki vandamál fyrir Íslendinga. Það getur einfaldlega ekki verið að álverin á Íslandi fái ívilnun umfram önnur álver innan Evrópusambandsins ef til aðildar kæmi. Svo er auðvitað hugsanlegt að skýringin sé önnur. Að álverin í Evrópu borgi þennan súrálstoll ekki í raun þar sem þau noti annars vegar súrál framleitt innan ESB og hins vegar frá gömlum nýlendum, sem tollkvótinn nái til. Og að rök Íslendinga yrðu þá að ekki mætti mismuna álverum á Íslandi. Um þetta eru misvísandi upplýsingar. Aðal samningamaður Íslands segir í svari sínu til Evrópuvaktarinnar, sem birt var í 2. grein í þessum greinaflokki um áliðnaðinn á Íslandi og ESB, að unnið hefði verið að því að greina hagsmuni á þessu sviði í samráði við Samtök álframleiðenda og Samtök iðnaðarins. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér hefur samráð við álverin hér verið lítið sem ekkert fyrr en nú í haust og þessi vinna því farið af stað mjög nýlega.

Þegar á heildina er litið er hins vegar margt, sem bendir til að uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi umfram framleiðsluaukningu, sem hægt er að ná fram með aukinni hagræðingu og betri nýtingu á núverandi álverum sé lokið. Rökin fyrir þeirri skoðun eru eftirfarandi:

1. Pólitískt andrúmsloft á Íslandi gagnvart áliðnaði er fjandsamlegt og ekki fyrirsjáanlegt að það breytist fyrr en þá að loknum þingkosningum 2013.

2. Önnur lönd og aðrir heimshlutar bjóða nú hagstæðara verð á raforku en við gerum.

3. Grænland er að koma fram á sjónarsviðið sem valkostur fyrir álfyrirtækin, sem við getum að vísu notið góðs af að hluta til.

Á tæpri hálfri öld hefur pólitískur skoðanaágreiningur um áliðnaðinn tvisvar sinnum þvælst fyrir frekari uppbyggingu. Nú er líklegt að sá ágreiningur hér heima fyrir hafi endanlega stöðvað þessa uppbyggingu.

Skylt er þó að taka fram, að sumir viðmælendur mínir eru þeirrar skoðunar að það sé ekki endilega víst að frekari uppbygging hefði verið til farsældar. Verðsveiflur í áliðnaði séu svo miklar að það sé af þeim sökum ekki æskilegt að vægi áliðnaðar í þjóðarbúskapnum yrði meira en orðið er. Heimild: Evrópuvaktin.is

 

Hægri grænir, flokkur fólksins er grænn borgaraflokkur.
Hægri grænir, flokkur fólksins er flokkur tíðarandans og raunsæisstjórnmála.
Hægri grænir, flokkur fólksins er umbótasinnaður endurreisnarflokkur.